*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Fólk 5. nóvember 2017 19:04

Fágætisferðaþjónusta í Fljótunum

Kristín Birgitta Gunnarsdóttir hefur verið ráðin hótelstjóri á Deplar Farm í Fljótunum í Skagafirði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lúxushótelið Deplar Farm, sem rekið er af bandaríska fyrirtækinu Eleven Experience, hefur ráðið Kristínu Birgittu Gunnarsdóttur sem nýjan hótelstjóra. 

„Þetta er fágætisferðaþjónusta sem við bjóðum upp á fyrir betur borgandi gesti enda má eiginlega segja að við teygjum okkur mjög langt í því að uppfylla óskir gestanna,“ segir Kristín sem vann áður fyrir lúxushótelið Tower Suites í Höfðaturninum í Reykjavík.

„Ég var með þar frá því fyrir opnun í því að koma þessu skemmtilega verkefni í gang. Þar setti ég á mig marga hatta og tók þátt í uppbyggingunni og rekstrinum.“ Kristín á tvo syni, 21 árs og 26 ára, og býr hún ásamt eiginmanni sínum Marteini Stefánssyni, sérfræðingi hjá Landsbankanum, í borginni. „Síðan er ég með annað heimili núna á Siglufirði þangað sem ég fer í og úr vinnu úr Fljótunum,“ segir Kristín.

Hún hefur tekið upp á því að endurvekja sitt gamla áhugamál, ljósmyndun, eftir að ferðunum um Norðurlandið fór að fjölga. „Ég var með mikla ljósmyndadellu á árum áður og sveitafegurðin þarna í Fljótunum og á Norðurlandinu öllu ýtir undir hana.“ Kristín hefur unnið ýmiss konar störf í gegnum árin, en hún er lærður grafískur hönnuður. 

„Ég var með mitt eigið fyrirtæki, litla auglýsingastofu, í nokkur ár, en ég virðist alltaf togast inn í einhvers konar störf sem snúast um að ýta undir upplifun gesta og viðskiptavina, ég hef unnið framleiðslustörf, sem flugfreyja og fleira,“ segir Kristín sem leiddist síðan út í hótelgeirann eftir að hafa bætt við sig námi. 

„Ég fór í MBA námið í HR en meðan ég var að hugsa um næsta skref fór ég inn hjá Icelandair Hotels þar sem ég vann með skólanum og svona leiðir eitt af öðru.“  Utan vinnu hefur Kristín mjög gaman af því að tengja ferðalög og útivist við hreyfingu ýmiss konar. 

„Bæði þegar kemur að jóga og hlaupum og svo erum við hjónin hluti af mjög stórum og skemmtilegum vinahópi sem fer í reglulegar ferðir aðallega tengdar hjólreiðum, bæði innanlands og utan,“ segir Kristín.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.