Nokkur af elstu og fágætustu hlutabréfum sem fyrirfinnast frá rekstri íslenskra fyrirtækja frá upphafi þeirra verða sýnd á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands um helgina. Elsta íslenska hlutafélagið, Hið íslenska hlutafélag, var stofnað  árið 1751. Félagið var oftast nefnt Innréttingarnar og kennt við einn helsta hvatamann þess, Skúla Magnússon fógeta. Hið íslenska hlutafélag hafði þrettán hluthafa og um 1.550 ríkisdali í hlutafé. Félagið naut fjárstuðnings konungs en það nægði ekki til og einokunarverslunin Almenna verslunarfélagið tók við rekstrinum árið 1764.

Á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands, sem haldin verður í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni um helgina, verður margt áhugavert. Elsta hlutabréfið á sýningunni er bréf í Félagsversluninni við Húnaflóa, frá 1871, upp á 25 ríkisdali, og það næstelsta í Gránufélaginu frá árinu 1876.

Félagsverslunin við Húnaflóa var stofnuð að undirlagi Pétur Eggerz á Borðeyri. Félagsverslunin starfaði ekki ýkja lengi, eða til ársins 1877, en hratt þó úr vör ýmsum nýjungum, ekki síst varðandi verðlag og vöruvöndun. Félagið efldi líka trú Íslendinga á að þeir gætu sjálfir rekið verslunarstarfsemi, en hún hafði lengst af verið í höndum erlendra aðila. Gránufélagið var stofnað á Norðurlandi árið 1870 í kringum rekstur á skonnortunni Gránu og eignaðist næstu þrettán ár þrjú önnur skip og rak eina stærstu verslun á Íslandi þegar umsvifin voru mest.

Fyrsta útvarpsstöðin var í einkaeign

Ekki hafa mörg íslensk hlutafélög starfað yfir öld, en þó má t.d. nefna Ísfélag Vestmannaeyja sem stofnað var árið 1901, Slippfélagið sem stofnað var vorið 1902 og Garðræktarfélag Reykhverfunga, stofnað 1904. Á sýningunni má einnig sjá hlutabréf í Íslandsbanka frá 1904. Íslendingar fengu einkarétt á hlutabréfakaupum í bankanum en áhugi innanlands var dræmur og einungis söfnuðust 55 þúsund krónur í hlutafé af þeim 2 milljónum sem stefnt var að. Úr varð að meirihluti hlutafjár kom frá dönskum og norskum fjárfestum. Þá má finna á sýningunni bréf í Fossafélaginu Íslandi, sem varð til þegar fossafélögin Skjálfandi og Gigant voru sameinuð í eitt félag árið 1909. Einar Benediktsson skáld var einn helsti forsprakki og stjórnarmaður í fyrrnefnda félaginu. Einnig er á sýningunni bréf í fossafélaginu Titan frá árinu 1915. Sömuleiðis má nefna hlutabréf í Flugfélagi Íslands frá árinu 1920 og einkahlutafélaginu Hf. Útvarp Reykjavík frá 1926, en það félag stóð að fyrstu útvarpsstöð sem starfrækt hefur verið á Íslandi. Stöðin var í einkaeigu og sendi út á árunum 1926 til 1928.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Óvissa er um framkvæmdir á húsnæði í miðbænum.
  • Fjallað er um minnkandi bílasölu á árinu.
  • Verkföll eru yfirvofandi á föstudaginn. Fjallað er um deilu Eflingar og SA.
  • Farið er yfir hlut ferðaþjónustunnar í uppgangi síðustu ára.
  • Vilhelm Már Þorsteinsson, nýr forstjóri Eimskips, er í ítarlegu viðtali.
  • Fjallað er um uppgang Garðlistar, sem vaxið hefur hratt á síðustu árum.
  • Umfjöllun um tækniyfirfærslu og atvinnulífið.
  • Rætt er við Evrestfara.
  • Sagt er frá bjórbruggi úr kartöfluhýði.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um sósíalísk laun.
  • Óðinn skrifar um dóm Mannréttindómstóls Evrópu og Landsrétt.