Fagfjárfestar hafa verið að innleysa gengishagnað af hlutabréfum sínum í Bandaríkjunum upp á síðkastið. Fjallað er um málið í dagbók eignastýringar Landsbankans og komið inn á gengislækkun á hlutabréfum Apple.

Þar segir:

„Í svipinn er líklegra að salan í Apple eigi sér aðrar skýringar – og ekki er vitað um slíka losun hjá fleiri leiðandi stórfyrirtækjum enn sem komið er. Á fyrstu vikum ársins 2000 mátti finna fjölmörg slík dæmi í aðdraganda þess að tæknibólan sprakk eftir miðjan mars það vor. Á þetta er minnst hér til að minna á fyrirbærið – þ.e. losun á hlutabréfum leiðandi fyrirtækja í aðdraganda bjarndýrsmarkaðs – vegna þess að allur er varinn góður.

Þegar dregin er stefnulína á vikukorti Apple undir lággildi ársins 2011 og í nóvember og desember 2012 sést að halli hennar svarar til hátt í 40% árlegrar hækkunar. Verð á hlutabréfum Apple í lok 49. viku 2012 er meira en 30% hærra en í upphafi ársins þrátt fyrir 20% lækkun á síðustu vikum. Vel kann að vera að stefnulínan haldi sem stuðningur og ekki verði af frekari lækkun á hlutabréfum risafyrirtækisins. En Apple er leiðandi fyrirtæki, vissulega í hækkun og hugsanlega í lækkun líka – svo að skynsamlegt er að taka allar vísbendingar alvarlega.“