Fagkaup, sem á meðal annars Johan Rönning, Sindra og Áltak, skilaði 1,9 milljarða króna hagnaði á síðasta ári samanborið við 1,1 milljarð árið 2020. Rekstrartekjur samstæðunnar námu 17,4 milljörðum og jukust um 17,8% frá fyrra ári.

Á fyrri árshelmingi 2021 keypti samstæðan allt hlutafé í Varma og vélaverk ehf. og KH vinnufötum ehf. Í ársreikningi Fagkaupa kemur fram að keyptur eignarhlutur í dótturfélögum í fyrra hafi numið 748 milljónum. Í ár hefur Fagkaup einnig keypt Hagblikk og heildverslunina Ísleif Jónsson ásamt því að fyrirhuguð kaup á sérversluninni Fossberg eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Sjá einnig: Fagkaup greiðir út 2 milljarða

Eignir Fagkaupa voru bókfærðar á 8,7 milljarða. Fagkaup er í eigu AKSO, eignarhaldsfélags hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur. Eignir AKSO voru bókfærðar á 10,6 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 5,2 milljarðar. Félagið hyggst greiða út 100 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs.

Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 8. september 2022.