Fagkaup, eignarhaldsfélag hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, hefur náð samkomulagi um kaup á KH Vinnufötum. Samkeppniseftirlitið (SKE) heimilaði kaupin fyrir rúmri viku .

KH Vinnuföt sérhæfa sig í sölu og þjónustu á öllum tegundum af vinnu- og hlífðarfatnaði. Í ákvörðun SKE kemur fram að Fagkaup starfi á nokkrum aðskildum mörkuðum og sala og þjónusta vegna vinnufata sé einungis brot af starfsemi fyrirtækisins, en sú starfsemi fari fram í rekstrareiningunni Sindri vinnuföt.

„Að mati samrunaaðila ríkir töluverð samkeppni á markaði fyrir vinnuföt. Þá kemur fram í samrunaskrá að netverslun hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár hjá neytendum,“ segir í ákvörðun SKE.

Innan Fagkaupa samstæðunni eru, auk Sindra, fyrirtækin Vatn og veitur, Áltak, S. Guðjónsson og Johan Rönning.