Samtök atvinnulífsins fagna fyrstu skrefum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum vegna kórónuveirunnar. Þrátt fyrir að aðgerðirnar sem kynntar voru í hádeginu séu ekki útfærðar og þótt mörgum spurningum sé enn ósvarað sé yfirlýsingin skref í rétta átt.

Í færslu á vef samtakanna eru stjórnvöld þó einnig hvött til að huga að frekari aðgerðum sem munu hjálpa atvinnulífinu á næstu vikum og mánuðum þar sem óvissan er enn mikil. Telja samtökin að viðbrögð stjórnvalda og Seðlabankans á næstu dögum og vikum muni skipta höfuðmáli.

Að mati SA er fyrirséð að sú niðursveifla sem nú sé hafin verði dýpri og lengri en hagvaxtaspár stjórnvalda og Seðlabankans höfðu gert ráð fyrir. Nú þegar megi greina efnahagsleg áhrif vegna COVID-19 hér á landi þá sérstaklega í ferðaþjónustu. Í færslunni segir að í því samhengi sé mikilvægt að hafa í huga að hlutur ferðaþjónustu í útflutningstekjum sé meiri á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum auk þess að vera hærri en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Þá segir einnig að verulegur samdráttur í ferðaþjónustu muni áður en langt um líður smitast út um allt efnahagslífið. Aukin óvissa magni einnig upp frekari neikvæð áhrif og því sé yfirlýsing ríkistjórnarinnar mikilvæg fyrir öll fyrirtæki landsins.