Rick Scott, ríkisstjóri í Flórída, hefur numið úr gildi um ársgömul lög sem gerðu öllum útlendingum skylt að framvísa alþjóðlegu ökuskírteini til að mega aka bíl í ríkinu. Ökuskírteinislögin voru sett í fyrra en gildistöku þeirra var frestað eftir hávær mótmæli frá m.a. stjórnvöldum í Kanada. Kanadamenn eru mjög fjölmennir meðal þeirra sem dvelja langdvölum í Flórída yfir vetrartímann.

Fram kemur á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) að ríkisstjórinn hafi sagt þegar lögin voru felld úr gildi að hann hafi verið staðráðinn í að gera Flórída að öflugasta ferðamannasvæði heims og hafi ökuskírteinislögin stefnt þeim fyrirætlunum í tvísýnu. Nú þegar lögin væru ekki lengur í gildi séu þúsundir starfa í ferðageiranum ekki lengur í hættu. Ferðamenn hvaðanæva úr heiminum gætu nú eins og áður komið til Florida og leigt sér þar bíla og ekið að vild um ríkið á þeim eða á eigin bílum á ökuskírteini eigin lands.

Sendiherrar og fulltrúar hinna ýmsu ríkja, m.a. Kanada, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu sem viðstaddir voru afnám ökuskírteinislaganna fögnuðu málinu enda óttast þeir ekki neinar truflanir á ferðum sínum í Flórída.

FÍB segir afnám ökuskírteinislaganna hafa sömu þýðingu fyrir Íslendinga og aðra Evrópubúa. Þeim verður ekki lögskylt að framvísa alþjóðlegu ökuskírteini ef lögregla biður um ökuskírteini eða þegar tekinn er bílaleigubíll.

„Íslenska ökuskírteinið er hins vegar eitt og sér fullgilt allsstaðar á evrópska efnahagssvæðinu. Utan þess, m.a. í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og í Asíu og Eyjaálfu er alþjóðlegt ökuskírteini hins vegar nauðsynlegt fylgigagn, hyggist maður ferðast akandi,“ segir á vef FÍB.