Stjórn Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) fagnar því að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 sé gert ráð fyrir afnámi tolla í áföngum, fyrst með afnámi tolla af fötum og skóm um næstu áramót og af öðrum vörum en matvörum um áramót þar á eftir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„SVÞ hefur um langa hríð bent á þá óhagstæðu samkeppnisstöðu sem greinin býr við og hafa tollar vegið þungt í því sambandi. Afnám vörugjalda um s.l. áramót var fyrsta alvöruskrefið sem stigið hefur verið, a.m.k. um árabil, í því skyni að jafna samkeppnisstöðu greinarinnar. Þau áform sem birtast í fjárlagafrumvarpinu sýna í verki vilja stjórnvalda til að halda áfram á sömu braut og létta álögum af versluninni,“ segir í tilkynningunni.

Gagnast þeim efnaminnstu

Samtökin segja að neytendur muni þó fyrst og síðast njóta þessara breytinga. Ekki megi gleyma að íslensk verslun búi að verulegu leyti við mikla erlenda samkeppni. Sú samkeppni muni væntanlega aðeins aukast samfara aukinni netverslun.

„Afnám vörugjaldanna hafði veruleg áhrif til lækkunar neysluverðsvísitölu og það sama mun gerast með afnámi tolla, eins og kemur fram í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins. Afnám tolla af fötum og skóm, mun því strax hafa jákvæð áhrif á fjárhag fjölskyldnanna í landinu, ekki síst hinna efnaminni. Allar kannanir sýna enda að það eru efnaminnstu fjölskyldurnar sem eru ólíklegastar til að kaupa sér föt og skó erlendis,“ segir jafnframt.

Verði einnig færðar í neðra þrep virðisaukaskatts

Samtökin segjast eindregið þeirrar skoðunar að samhliða því að fella niður tolla af fötum og skóm sé nauðsynlegt að færa þessar vörur í neðra þrep virðisaukaskatts. Það sé skref sem verði að taka til að íslensk fataverslun keppi á jafnréttisgrundvelli við erlenda fataverslun.

„Varðandi lækkun tolla á matvælum þá hafa lengi verið í undirbúningi viðræður við Evrópusambandið um aukið tollfrelsi í gagnkvæmum viðskiptum aðila með landbúnaðarvörur. Nú liggur fyrir að næsti samningafundur þessara aðila verður haldinn 17. september n.k. og binda Samtök verslunar og þjónustu miklar vonir við að þær viðræður skili þeim árangri að tollar muni á næstunni lækka á ýmsum mikilvægum tegundum matvæla,“ segir að lokum í tilkynningu samtakanna.