*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 13. mars 2015 09:23

Fagna afturköllun aðildarumsóknar að heiman

Búið er að stofna til samkomu til að fagna afturköllun aðildarumsóknar. Allir meðlimir samkomunnar verða heima hjá sér.

Ritstjórn

„Fögnum afturköllun aðildarumsóknar án þess að fara að heiman. Það má grilla, elda eða bara panta pítsu.“

Þetta segja andstæðingar aðildarumsóknar að Evrópusambandinu (ESB) sem hafa stofnað til viðburðar á Facebook til þess að fagna afturköllun aðildarumsóknarinnar.

Stofnað var til viðburðarins fyrir tíu klukkustundum og hafa nú um hundrað manns lýst því yfir að þeir ætli að fagna afturkölluninni. „Hver heima hjá sér. Við verðum saman í anda,“ segir í texta viðburðarins.

Greint var frá afturkölluninni í gær, en þá afhenti Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lettneskum starfsbróður sínum, Edgars Rinkevics, bréf til formennsku ESB þar sem tilkynnt er um að ríkisstjórn Íslands hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður á nýjan leik.

Þetta hefur vakið hörð viðbrögð í þingheimi, og hafa stuðningsmenn aðildarviðræðna þar verið harðorðir í garð ríkisstjórnarinnar vegna málsins. Þá var stofnað til mótmælafundar á Austurvelli í gær. Ekki er vitað með vissu hve margir mættu, en af vefmyndavél sem beint er yfir Austurvöll að dæma virtist sem þátttakendur hefðu verið undir hundrað talsins. Aftur er búið að boða til mótmæla næstkomandi mánudag á sama stað.

Stikkorð: ESB Aðildarviðræður