Með gríðarlegri hersýningu fögnuðu stjórnvöld í hinu kommúníska alþýðulýðveldi Kóreu, venjulega kallað Norður Kóreu í dag fæðingu stofnanda ríkisins, Kim Il Sung, afa núverandi leiðtoga, Kim Jong Un.

Skrúðgangan er hápunktur mikilvægasta hátíðardags í ríkinu, en í henni taka tugir þúsunda hermanna og almennra borgara þátt, sem hafa æft vikum saman flóknum sýningum þar sem blómum og öðru er veifað í takt eða gríðarlega stór form eru teiknuð úr mannhafinu á aðaltorginu í Pyongyang, sem nefnd er eftir forsetanum fyrrverandi.

Stjórn Trump þrýstir á Kínverja að leysa vandann

Á sama tíma og bandarísk stjórnvöld hafa verið að setja aukinn þrýsting á kínversk stjórnvöld um að hafa hemil á ríkinu sem haldið hefur áfram að prófa kjarnorkusprengjur og eldflaugar sem geta borið þær sífellt lengra siglir nú bandarísk flugmóðurskip ásamt fylgdarflota í átt að landinu.

Var jafnframt búist við því að stjórnvöld í Norður Kóreu myndu í tilefni dagsins gera tilraunasprenginu á sjöttu kjarnorkusprengju sinni, en af því varð ekki.

Nýjar eldflaugar sýndar

Hins vegar sýndi herinn í skrúðgöngunni nýjar langdrægar eldflaugar, sem vel var fylgst með af erlendum aðilum, þar með talið gerð sem virðist lengri og langdrægari en fyrri flaugar.

Sérfræðingar telja að stjórnvöld í landinu séu meðal annars að bæta getu sína til að skjóta eldflaugum á auðveldari hátt sem síður er hægt að taka eftir með fjareftirlitsbúnaði.

Jafnframt virðist landið vera að byggja upp getu til að skjóta upp eldflaugum sem nota fljótandi eldsneyti sem og eldflaug sem hægt sé að skjóta úr kafbátum. Þó er talið að sumar þessara eldflauga séu enn á þróunarstigi og því ekki ljóst hve nothæfar þær eru enn sem komið er.