Christine Lagarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fagnar fréttum af því að gríska ríkisstjórnin muni greiða 450 milljóna evra afborgun á láni frá AGS á fimmtudaginn, að því er BBC greinir frá.

Í gær sagði fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, að Grikkland myndi standa við allar sínar skuldbindingar gagnvart öllum kröfuhöfum „út í það óendanlega".

Hann sagði þetta eftir fund með embættismönnum AGS í Washington. Um fimm ár eru síðan alþjóðastofnanir eins og ESB og AGS hófu að styðja við gríska ríkið fjárhagslega, en átök standa nú um afgreiðslu á 7,2 milljarða króna láni til gríska ríkisins. AGS og Evrópusambandið vilja að gríska ríkisstjórnin grípi til umsvifameiri aðhaldsaðgerða áður en lánið er afgreitt. Tillögur Grikkja um slíkar aðgerðir hafa ekki hlotið náð fyrir augum lánadrottnanna.

Seinkun á afgreiðslu lánsins hefur orðið til þess að gríska ríkið gengur nú á varasjóði sína til að standa við skuldbindingar.