Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpi fjármálaráðherra sem kveður á um 0,5 prósentustiga lækkun tryggingagjalds. Ef frumvarpið verður að lögum mun það lækka þann 1. júlí næstkomandi.

Tryggingagjaldið sem hlutfall af launakostnaði árið 2007 var 5,34%, en er nú um 7,35%. Hæst var það um 8,65% árið 2010. Rökin fyrir því að tryggingagjaldið ætti að vera svo hátt voru helst þau að atvinnuleysi jókst hratt.

Nú þegar atvinnustig hefur batnað telur FA að tekjurnar af gjaldinu séu notaðar til að fjármagna önnur útgjöld ríkisins en atvinnuleysistryggingar.

„Lækkun tryggingagjaldsins er líka gríðarlega mikilvæg til að auðvelda fyrirtækjum að standa undir mjög miklum launahækkunum sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um,” segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.