Ríkisstjórnin tilkynnti í gær nýjan búvörusamning við garðyrkjubændur. Stjórn Samkaupa fagnar því að ríkisstjórn Íslands hafi orðið við óskum félagsins og garðyrkjubænda um að auka fjármagn til íslenskra garðyrkjubænda um 200 milljónir króna.

„Innlend grænmetisframleiðsla er gríðarlega mikilvæg fyrir land og þjóð. Ástandið sem myndaðist í kjölfar kórónuveirunnar sýndi okkur mikilvægi hennar,“ er haft eftir Gunnari Agli Sigurðssyni, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa.

Samkaup skoraði á Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að auka fjárframlög til íslenskra garðyrkjubænda í opnu bréfi þann 20. mars síðast liðinn. Í búvörusamningnum er samkomulag um að auka fjárframlög til stéttarinnar um 200 milljónir.

„Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin sé tilbúin að styðja við bakið á grænmetisbændum. Skilyrði til grænmetisræktunar á Íslandi eru góð auk þess sem hún er umhverfisvæn. Þá hefur orðið vitundarvakning um gæði íslensks grænmetis sem við sjáum meðal annars í aukinni sölu í verslunum okkar,“ segir Gunnar Egill í tilkynningu Samkaupa.

„Aukin fjárframlög ríkisstjórnarinnar eiga að auka grænmetisframleiðslu á Íslandi um 25% sem rímar vel við okkar umhverfisstefnu. Það skapar okkur aukið sjálfstæði að geta sótt holla matvöru frá innlendum framleiðendum.“