Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg fagna þeirri ákvörðun Landsbanka Íslands hf. að reisa nýjar höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Þar segir að Landsbankinn sé eina stórfyrirtækið sem enn hafi höfuðstöðvar sínar í Kvosinni, en skammt sé frá því að skrifstofur Landssímans, Tryggingamiðstöðvarinnar, Eimskipafélagsins, Búnaðarbankans og fleiri fyrirtækja hafi horfið úr Kvosinni.

„Ákvörðun bankans lýsir stórhug og metnaði fyrir hönd miðbæjarins og gefur vonir um nýtt sóknarskeið með fjölbreyttara mannlífi og aukinni verslun og þjónustu á þessu svæði,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig að samtökin sjái ástæðu til að taka undir með hugmyndum Hjálmars Sveinssonar, formanns skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um að skóli eða stofnun af því tagi fái aðstöðu í gamla Landsbankahúsinu í framtíðinni. Flutningur Landsbankans á Hörpureitinn gefi einstakt tækifæri til uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi í Kvosinni, sem vonandi verði sem fjölbreyttust.