Samtök verslunar og þjónustu segja breytingartillögur atvinnunefndar Alþingis á búvörusamningum vera jákvæðar.

Annars vegar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára, og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, sem eru ostar sem ekki eru framleiddir hér á landi.

Búvörusamningar vegi að stjórnarskrá

Samtökin hafa sagt í umsögn um búvörusamningana að með undirritun þeirra sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál.

Þá gagnrýnir SVÞ framkvæmd á úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Leggja samtökin til breytingar á því fyrirkomulagi að leggja útboðsgjöld á kvótanna, því þau muni leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum.

Fagna tollfrjálsum innflutningi á ostum

Telja samtökin jákvætt að baráttumál þeirra um tollfrjálsan innflutning á ostum hafi loksins náðst fram. Á móti kemur hvað magnið sem mun ekki bera háan verndartoll verður einungis lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og segja samtökin það ekki hafa áhrif á markað sem beri ölli merki einokunar.

Jafnframt telja samtökin jákvætt að lagt sé til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninganna. Þó felur það ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra.

Harma að ekki sé hlustað á tillögur þeirra

Einnig harma samtökin að nefndin hafi ekki tekið til skoðunar tillögur þeirra um breytingar á úthlutun á tollkvótum. Segja þau því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem feli í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur.

Jafnframt benda samtökin á að tollkvótarnir taki ekki tillit til þess að innlend framleiðsla hafi ekki náð að anna aukinni eftirspurn eftir matvælum í kjölfar verulegrar aukningar ferðamanna.

Vilja aukið frjálsræði í alifugla- og svínakjötsinnflutningi

Loks skora samtökin á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á landbúnaðarmálum, harma þau til að mynda að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti með tollalækkun á þeim afurðum.