Verslunarráð Íslands í Japan fagnar þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, og fjögurra annarra þingmanna sem lögð var fram í gær um að hefja undirbúning að gerð fríverslunarsamnings við Japan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verslunarráðinu

Þar fagnar Verslunarráðið einnig fundi sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands, átti með Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, í Tókíó 17. febrúar síðastliðinn þar sem einnig var rætt um fríverslunarsamning á milli Íslands og Japans.

„Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar Verslunarráðsins, 16. janúar sl., ákvað stjórnin að einsetja sér að styðja og efla enn frekar viðskiptatengsl þjóðanna í samstarfi við sendiráð Íslands í Tókíó, og þá sérstaklega styðja við gerð fríverslunarsamnings milli Íslands og Japans.

Þann 5. febrúar sl., átti Verslunarráðið svo fund í Tókíó með Högna Kristjánssyni, sviðsstjóra viðskiptasviðs utanríkisráðuneytis Íslands, og Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Tókíó sem er jafnframt heiðursformaður Verslunarráðsins, um möguleika á fríverslunarsamningi á milli Íslands og Japans.

Stjórn Viðskiptaráðs Íslands í Japan.
Stjórn Viðskiptaráðs Íslands í Japan.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ljóst er að japönsk stjórnvöld vinna nú markvisst að því að styrkja samkeppnishæfni sína á alþjóðavettvangi og hafa nú þegar gert 13 tvíhliða fríverslunarsamninga og vinna að gerð sjö til viðbótar.

Á sama tíma eru japönsk stjörnvöld að leggja meiri áherslu á frekara samstarf við Ísland eins og fram hefur komið í viðræðum japanskra stjórnvalda við hin svokölluðu NB8 ríki, þ.e. Norrænu þjóðirnar og Eystrasaltsríkin,“ segir í tilkynningu frá Verslunarráði Íslands í Japan.

Þá segir að utan Evrópu sé Japan næst stærsta viðskiptaland Íslands á eftir Bandaríkjunum og jafnframt þriðja stærsta efnahagsveldi heims. Japan hafi verið fyrsta erlenda ríkið til að styðja Ísland innan Alþjóðagjaldeyrissjóðins eftir efnahagshrunið 2008. Japan sé eitt þeirra erlendu ríkja sem styrki hvað mest íslenska náms- og listamenn. Ferðamannafjöldi frá Japan til Íslands hafi aukist um 15% árlega á síðastliðnum árum og japanska sé orðin næst vinsælasta erlenda tungumálið sem kennt er við Háskóla Íslands.

Á næsta ári fagna þjóðirnar 60 ára stjórnmálasamstarfi.