Samtökin Hjartað í Vatnsmýri fagna samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair frá því fyrr í dag þar sem samþykkt var að lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni verði frestað.

Fram kemur í ályktun samtakanna að helst beri að nefna að flugstarfsemi er tryggður starfsvettvangur til a.m.k. næstu 9 ára, ríki og borg viðurkenni í fyrsta sinn að flugvöllur verði að vera á höfuðborgarsvæðinu og að nefnd verður skipuð í síðasta sinn um flugvallarstæði í Höfuðborginni.

Eins og fram kom á VB.is um málið fyrr í dag mun Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, stýra samráðshópi sem á að finna bestu staðsetninguna fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu í framtíðinni. Í ályktun samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni segir að þau hlakki til samstarfs við þá aðila sem hafa með höndum að finna bestu staðsetningu fyrir flugvöllinn.