Félag atvinnurekenda fagnar því að Landspítalinn ætlar að gera umbætur í innkaupum spítalans Spítalinn brást svo við vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á innkaupum hans. Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekenda .

Samkeppniseftirlitið ákvað að með tilliti til yfirlýsingar Landspítalans, þyrfti ekki að afhafast frekar í málinu. Hins vegar gerði Samkeppniseftirlitið athugsasemdir við innkaupahætti spítalans.

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra SA, að SA fagni þeim umbótavilja sem kemur fram í yfirlýsingu Landspítalans og að Landspítalinn hafi verið að bæta innkaupahætti sína á undanförnum misserum og árum. En þrátt fyrir það bendir Ólafur á að Landspítalinn er það opinbera fyrirtæki sem oftast hefur verið kært til kærunefndar útboðsmála samkvæmt úttekt SA.

„Við tökum undir það með Samkeppniseftirlitinu að vegna stærðar Landspítalans getur hann með innkaupaháttum sínum haft veruleg áhrif á samkeppni á markaði fyrir lyf og heilbrigðisvörur. Heilbrigðir innkaupahættir spítalans stuðla sömuleiðis að því að spara skattgreiðendum verulega fjármuni,“ er loks haft eftir Ólafi í fréttinni.

Í yfirlýsingu sinni skuldbindur spítalinn sig meðal annars til að gera eftirfarandi breytingar:

  • Innleidd verður samkeppnisréttaráætlun fyrir spítalann. Tryggt verður að allir stjórnendur og starfsmenn sem hafa innkaupaheimildir verði að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi Landspítala í innkaupum á heilbrigðisvörum.
  • Tryggt verður að viðkvæmar upplýsingar sem spítalinn býr yfir um birgja, tilboð þeirra eða viðskiptaskilmála, berist ekki til annarra birgja eða keppinauta fyrir tilstuðlan spítalans. Hnykkt verður á þessu í nýrri gæðahandbók innkaupa spítalans.
  • Landspítalinn mun beita verðfyrirspurnum með reglulegum hætti vegna innkaupa sem er undir viðmiðunarfjárhæðum laga um opinber innkaup. Leitast skal við að senda verðfyrirspurnir til allra þekktra birgja sem bjóða viðkomandi vöru og/eða þær verða birtar í opinni gátt á vef spítalans.
  • Við innkaup á heilbrigðisvörum, tækjum og búnaði fyrir gjafafé skal eftir fremsta megni reynt að fylgja sambærilegum ferlum og við önnur innkaup, með það að markmiði að ná sem hagkvæmustum innkaupum. Þannig skal almennt beita verðfyrirspurnum í innkaupum á slíkum vörum.
  • Svokallaðar huglægar kröfur í útboðum (sem varða matskennda þætti) hafa verið gerðar hlutlægar eins nákvæmlega og unnt er. Landspítalinn lýsir sig meðvitaðan um þá hættu sem felist í vörumerkjatryggð fyrir samkeppni á markaði og jafnræði bjóðenda.
  • Spítalinn mun innleiða nýjar innkaupareglur og draga þær saman í sérstaka gæðahandbók innkaupa. Hún verður aðgengileg öllum hagsmunaaðilum.
  • Yfirlýsingin er dagsett 9. júní síðastliðinn. Ætlunin er að samkeppnisréttaráætlun og verkferlar henni tengdir verði komin í gagnið innan níu mánaða frá undirritun hennar (9. mars 2017) en aðrar aðgerðir innan tólf mánaða.