Forsíða fyrsta rits að Landbúnaðarsögu.
Forsíða fyrsta rits að Landbúnaðarsögu.

„Pönnukökur með rjóma og sultutaui. Það er landbúnaðurinn í hnotskurn,“ segir Níels Árni Lund, skrifstofustjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, um veitingarnar sem verða í boði þegar ritið Landbúnaðarsaga Íslands verður kynnt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag.

Níels segir landbúnaðarsöguna ná yfir stóran hluta Íslandssögunnar enda hafi landbúnaður átt hlut í sögu lands og þjóðar frá landnámi. Ritunartíminn, að sögn Níels, er talinn í landbúnaðarráðherrum. Þeir hafi verið fimm sem setið hafi í embætti og kostað ritun verksins frá því Guðni Ágústsson kom fyrst að því. Hann fór frá árið 2007.

Ritið er engin smásmíði: fjögur bindi sem fjalla um landbúnað hér á landi frá fornu fari til vorra daga. Raunar nær frásögnin langt úr fyrir landsteina. Í fyrsta bindinu er fjallað um þróun landbúnaðar frá árinu 10.000 fyrir Krists burð og er þaðan komið inn á landbúnað í Noregi og búshætti landnámsmanna hér sem ruddu og brenndu skóglendi vegna ræktunar á nautgripum og svínum.  Fyrsta ritið nær allt fram að upphafi 19. aldar. Í hinum ritunum þremur er fjallað um landbúnað hér á landi nánast fram til dagsins í dag auk fjölmargra afmarkaðra þátta á borð við ræktun af ýmsum toga og félagsmál.

Níels segir tildrögin að ritun landbúnaðarsögunnar þá að Jónas Jónas Jónasson, fyrrverandi búnaðarmálastjóri, hafa leitað eftir því á sínum tíma að landbúnaðarráðuneytið styddi hann í því að rita söguna. Um svipað leyti hafi sagnfræðingurinn Árni Daníel Júlíusson borið upp svipað erindi. Guðni Ágústsson bað svo Níels um að leiða þá Jónas og Árna saman og rituðu þeir sitt hvort ritið. Jónas lést frá verkinu árið 2007 en hafði lokið við bindin tvo. Dr. Helgi Skúli Kjartansson kom bókum hans svo í útgáfuhæft form.

Nánar má lesa um bókina hjá útgáfunni Skruddu .