Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, segist ekki geta staðfest þær tölur sem BBC birti á vef sínum í dag . Þar segir að tíundi hver Íslendingur hafi gefið út bók.

Kristín segist hins vegar fagna þeim áhuga sem íslenskum bókmenntum er sýndur um þessar mundir. Hún tengir umfjöllun BBC við Bókamessuna í Frankfurt sem lauk um helgina.

„Þarna eru gerðir kaupmálar og þarna eru bækur keyptar og seldar,“ segir Kristín og bendir á að Íslendingar hafi átt sína fulltrúa á Bókamessunni að þessu sinni. Einungis tvö ár eru síðan þessi sama bókamessa var tileinkuð Íslandi.

Kristín fagnar alþjóðlegum áhuga á íslenskri menningu. „Þetta er ótrúlega gaman,“ segir hún og bendir auk þess á að íslensk menning skili vel af sér fyrir þjóðarbúið.