Þorgerður K .Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, fagnaði því á Alþingi í dag að ný ríkisstjórn hefði tekið ákvörðun um að halda áfram með framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík.

Stefnt er að því að húsið verði tilbúið árið 2011. Það yrði seinkun um eitt ár miðað við upphaflega áætlun.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sagði að þetta væri dýr og stór biti. Það væri þó dýrara að klára húsið ekki en að geyma það. Þá væri hálfklárað hús í miðbæ Reykjavíkur ekki fýsilegur minnisvarði um þá tíma sem við værum að ganga í gegnum.

Þorgerður sagði að 600 manns myndu fá störf að nýju við að klára bygginguna. Það munaði um minna á tímum mikils atvinnuleysis. Þá væri þetta mikilvæg fjárfesting til framtíðar.