„ESA fagnar því að íslensk stjórnvöld hafi fallist á að gera veigamiklar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs til að tryggja að hún samræmist ríkisstyrkjareglum EES,“ segir Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en í kjölfar tilmæla (ESA) hafa íslensk stjórnvöld fallist á að breyta reglum um starfsemi Íbúðalánasjóðs. ESA hefur því ákveðið að ljúka rannsókn sinni á málefnum Íbúðalánasjóðs.

Eftir breytingarnar mun starfsemi Íbúðalánasjóðs vera háð ákveðnum takmörkunum, lán sjóðsins verða að hámarki 24 milljónir króna jafnframt því sem hlutfall lána af verðmæti eigna skuli að lágmarki vera 60% og að hámarki 80%. Af þessu leiðir að hámarksverðmæti eigna sem lánað verður út á mun verða 40 milljónir króna. Þessar takmarkanir verða háðar árlegri endurskoðun. Þar að auki munu leigufélög þurfa að uppfylla ákveðin félagsleg skilyrði til að standast lánshæfismat sjóðsins.

Fram kemur á vef ESA að stofnunin fagni því jafnframt að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að Íbúðalánasjóður muni héðan í frá aðeins sinna starfsemi tengdri almannaþjónustu. Þá hafa þau staðfest að ríkisborgurum EES-ríkja er ekki mismunað í lánafyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs.