Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja sölu á fjórðungshlut í Íslandsbanka. Stefnt er því að útboð verði snemmsumars. Eins og flestir vita þá var Bjarni Ármannsson forstjóri bankans um skeið og tímariti Frjálsrar verslunar, er hann spurður út í áformin.

„Ég fagna því mjög að Íslandsbanki verði skráður á markað, komist í hendur einkaaðila," segir Bjarni. „Ekki síst fyrir hönd starfsfólksins því ég held að það sé mikilvægt að fyrirtækið sé á leiðinni eitthvað. Íslandsbanki verður til þegar þrír einkabankar sameinast einum ríkisbanka og hefur alltaf verið kyndilberi hins frjálsa framtaks í fjármagnsgeiranum. Vegna þessa held ég að það hafi verið mikið áfall fyrir marga þegar bankinn var allt í einu kominn í ríkiseigu, sérstaklega starfsfólkið.

Ég held því að það verði til heilla fyrir bankann og viðskiptavinina að hann komist aftur í einkaeigu. Enn fremur er þetta mikilvægt skref svo hér verði samkeppnishæft efnahagslíf. Að þessu sögðu er mikilvægt að söluferlið verði gott og gangi hnökralaust fyrir sig og fólk læri af reynslunni í þeim efnum. Ég sé raunar ekki betur en fólk hafi lært af reynslunni úr bankahruninu. Almennt er það samfélag sem við búum í heilbrigt og gott. Vissulega er margt sem má gera miklu betur en hafandi búið í Sviss, Danmörku og Noregi þá hefur Ísland marga kosti í þeim samanburði. Hér er gott að búa, ekki síst fyrir fjölskyldufólk."

Fyrir utan mismunandi skoðanir á því hvort selja eigi bankann þá snýr gagnrýnin oft því að ekki sé rétti tímapunkturinn að selja núna.

„Þú veist aldrei fyrr en eftir á hvenær rétt er að selja. Hvort sem það er banki eða annað. Ef út í það er farið þá er alltaf hægt að halda því fram að það sé aldrei rétti tíminn. Ef hlutabréfin hækka mikið eftir söluna þá er það væntanlega vegna þess að aðstæður í efnahagslífinu hafa batnað til mikilla muna frá því sem var og fólk ætti að fagna því. Ef þau lækka þá getur það verið vegna þess að eitthvað var ekki inni í verðinu þegar salan fór fram og aðstæður hafa versnað í efnahagslífinu en þá er væntanlega gott að ríkið hafi losað sig út úr eignarhaldinu."

Spurður hvort selja eigi Landsbankann líka svarar Bjarni: „Ég er talsmaður sem minnstra ríkisafskipta og er á því að fjármálakerfið eigi ekki að vera í höndum ríkisins. Ég skil aftur á móti vel að það gerist ekki á einum degi heldur þurfi að gerast í skrefum. Ég er því alveg sammála þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á í þessum efnum."

Nánar er rætt við Bjarna Ármannsson í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .