Sigríður Hrund Pétursdóttir var kjörin nýr formaður Félags kvenna í atvinnulífinu þann 19. maí síðastliðinn. Hún vill að félagið endurspegli íslenskt atvinnulíf og að fjölbreyttur hópur kvenna komi að stjórn þess. „Helmingur sæta til stjórnar var laus og ég bað félagið um að kjósa fjölbreytt og þær gerðu það. Það var með því markmiði að við myndum sýna atvinnulífinu að það væri hægt að kjósa fjölbreytt án þess að hafa kvóta. Við tókum ákvörðun um fjölbreytni og framkvæmdum hana," segir Sigríður.
Áhuginn á FKA kviknaði eftir langan starfsferil í karllægum mannvirkjaiðnaði. „Þetta er náttúrulega bara frábær félagsskapur til að hitta fjölbreyttar konur á einum stað, hlaðnar reynslu, þekkingu, orku og krafti." Sigríður vill sjá aukið jafnrétti í íslensku atvinnulífi og segir að FKA eigi að vera leiðandi og mótandi afl í þeirri baráttu. „Við erum að beita okkur fyrir því að fjölga konum í stjórnunarstöðum, fjölga konum í eigin rekstri og efla samstöðu og samstarf meðal kvenna. FKA á að vera mótandi og leiðandi afl í íslensku samfélagi."

Sigríður er mikill frumkvöðull og hefur haft í nógu að snúast undanfarin ár. Hún er eigandi og framkvæmdastjóri Vinnupalla ehf., sem hún stofnaði árið 2017. „Það er lítill sproti í mannvirkjageiranum. Við erum í þeirri vegferð að bæta öryggi í greininni. Það kemur aðeins til eftir að ég vann hjá Norðuráli en í álbransanum er hart tekið á öryggismálum. Mér fannst þetta vanta inn í mannvirkjageirann." Þar að auki hefur hún aðstoð eiginmann sinn við rekstur á verktakafyrirtæki hans, Viðskiptavit ehf., um árabil.

Hún lætur ekki þar við sitja og stundar fjárfestingar innanlands, erlendis og í sprotum. „Ég hef mikinn áhuga á fjármagni og hvernig við stýrum fjármagninu. Það þarf betur að tengja saman fjármagnseigendur og sprotafyrirtæki í eigu kvenna. Ekki ósvipað og Auður Capital gerði. Við þurfum aðra svona bylgju til að tengja þessi öfl saman og til að  efla nýsköpunarfjárfestingar hjá konum."

Sigríður er gift Baldri Ingvarssyni og saman eiga þau fjögur börn. Henni finnst fjölskyldulífið skemmtilegast og finnst mikilvægt að vera samferða börnum sínum í lífinu. Hún nýtur þess að vinna með börnum og hefur kennt sex til níu ára gömlum börnum vísindi í frístundastarfi til nokkurra ára og finnst mikilvægt að huga að heilbrigðu lífi, bæði í lífi og starfi. „Ég passa að vera samkvæm sjálfri mér. Mér finnst að við eigum að stunda heilbrigt atvinnulíf og passa að hreyfa okkur og slökkva á snjalltækjunum um helgar og passa mörkin. Við búum í harðbýlu landi og það skiptir máli að við reynum að auðvelda okkur allt sem mest."