„Við skipulögðum í upphafi árs ferðalag um Norðurlöndin til að funda með fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum og vátryggingafyrirtækjum. Þetta er í fyrsta sinn sem við ferðumst til Norðurlandanna til að kynna þjónustuna okkar. Við buðum stórum hópi af fjárfestum í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Íslandi á fundi okkar, þar sem við kynntum fyrir þeim sýn okkar á markaðinn. Við reynum að kynna fyrir þeim öðruvísi og fjölbreyttari fjárfestingarmöguleika, því ef við hugsum eins og allir aðrir, þá verður árangur okkar eins og hjá öllum öðrum. Til þess að vera öðruvísi en aðrir, þá þurfum við að hugsa hlutina á annan hátt en aðrir. Það er það sem við erum að gera“ segir Victor Zhang, framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs hjá American Century Investments.

American Century Investments er stórt bandarískt sjóðsstýringarfyrirtæki sem er með starfsemi í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Rúmlega 1.300 manns starfa hjá fyrirtækinu og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Kansas í Bandaríkjunum, en fyrirtækið var stofnað í þar fyrir rúmlega 50 árum síðan.

Funduðu með íslenskum fjárfestum

Fulltrúar frá American Century Investments, áður nefndur Victor Zhang og Pia Michaelsson Sveinsson, sem er yfirmaður viðskipta fyrirtækisins á Norðurlöndunum, voru nú nýlega stödd hér á landi. Tilgangur heimsóknar þeirra var að funda með íslenskum fjárfestum til þess að kynna starfsemi fyrirtækisins og þá fjárfestingamöguleika sem það býður viðskiptavinum sínum upp á. Pia er ekki ókunn íslensku viðskiptalífi, en áður en Pia tók við þessu starfi þá starfaði hún hjá Öldu sjóðum hér á landi, þar sem hún vann mikið með íslenskum lífeyrissjóðum og fjárfestum.

Bjóða fjárfestum að fjárfestinga á nýmörkuðum

„Við erum að bjóða íslenskum fjárfestum upp á okkar sýn á heimsmarkaðinn. Íslandi hefur á síðustu árum tekist að gera efnahag sinn fjölbreyttari og reiða sig ekki lengur nánast einungis á útflutning. Við viljum hjálpa íslenskum fjárfestum að gera fjárfestingar sínar fjölbreyttari. Við bjóðum þeim því upp á möguleika á að fjárfesta innan Bandaríkjanna og einnig á nýmörkuðum. Við teljum mikil tækifæri felast í fjárfestingum á nýmörkuðum, þar sem að þetta eru margir hverjir markaðir sem eru að rísa hratt og bjóða upp á mikla tekjumöguleika. Sem dæmi þá eru eignir íslensku lífeyrissjóðanna að mestu bundnar við innlendan markað. Við teljum að við getum hjálpað þeim að gera eignasöfn þeirra fjölbreyttara, meðal annars með því að bjóða þeim möguleika á því að fjárfesta á nýmörkuðum. Nýmarkaðssvæði eins og t.d. Kína hafa þróast mikið síðustu árin og atvinnulífið og efnahagsumhverfið þar er orðið mun fjölbreyttara en það var“ segir Victor.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .