„Samkomulagið sem liggur fyrir gefur von um að hægt verði að koma böndum á efnavopnin og nú verði tekin raunveruleg skref í átt að því að binda endi á borgarastríðið í Sýrlandi. Við fögnum því að Bandaríkin og Rússland munu halda áfram góðu samstarfi og hvetjum þau til að vinna í sameiningu að því að tryggja einingu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir sem stöðva blóðbaðið í Sýrlandi,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í yfirlýsingu. Hann segir deilurnar í Sýrlandi ekki verða leystar með hervaldi og íslensk stjórnvöld styðji friðarumleitanir sem tryggi íbúum landsins mannréttindi, umbætur og lýðræðisþróun.

Utanríkisráðherra ítrekar fordæmingu á efnavopnaárásum í Sýrlandi, sem nú hafa verið staðfestar af rannsóknarteymi Sameinuðu þjóðanna. „Notkun efnavopna er stríðsglæpur og alvarlegt brot á alþjóðalögum. Þeir aðilar sem stóðu fyrir slíkum árásum verða að sæta ábyrgð,“ segir ráðherra.

Hann segir stjórnvöld í Sýrlandi bera meginábyrgð á þeirri vargöld sem þar ríkir og upplýsingar sem fram hafi komið bendi til þess að þau beri ábyrgð á efnavopnaárásum sem gerðar hafa verið.