Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri fagnar frumvarpi um fiskveiðistjórnun þar sem tekið er á mörgum þeim veikleikum sem helst hafa verið gagnrýndir í eftirlitsstörfum Fiskistofu.

„Það er mjög til bóta, þetta frumvarp,“ segir Ögmundur og samsinnir því að gildandi lög hafi ekki alltaf auðveldað Fiskistofu störfin.

„Það hafa verið pínulítil vandræði hvað gömlu lögin hafa verið afdráttarlaus: „skal svipta, skal gera,“ og ekki gert ráð fyrir einhverju meðalhófi þar inni. Þannig að það er bara jákvætt að fá víðari túlkunarmöguleika. Þá er hægt að fara að taka tillit til alvarleika brota og vera ekki að týna okkur í einhverjum smámálum.“

Með frumvarpinu er lagt til að heildstæðu viðurlagakerfi verði komið á fót vegna brota á fiskveiðistjórnarlögum. Með þessu er brugðist við ábendingum í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fiskistofu frá árinu 2018 og skýrslu verkefnastjórnar sem skilaði frá sér skýrslu á síðasta ári.

Ögmundur fagnar því einnig að heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti verði styrktar.

„Við verðum á einhvern hátt að sjálfvirknivæða eftirlitið meira og ég held að það sé eitthvað sem við verðum að horfa á með iðnaðinum. Hefðbundið eftirlit með eftirlitsmenn á staðnum verður alltaf takmarkað þó það verði alltaf nauðsynlegt með öðru eftirliti. Eðli sínu samkvæmt verður það alltaf dýrt ef við ætlum að ná þekju sem er að einhverju leyti ásættanleg, og við sáum líka á síðasta ári í Covid að það datt niður.“

Tengdir aðilar

Þriðja meginatriði frumvarpsins lýtur að því hvernig tekið er á tengdum aðilum í sjávarútvegi.

„Ég fagna öllu sem gerir þetta skýrara og skilmerkilegra, þannig að bæði við og greinin getum þá skilið hvað er verið að reyna að eltast við. Eins og lögin eru í dag þá er þetta raunverulega ekki gerlegt.“

Hann segist ekki átta sig á hvort þær breytingar sem lagðar eru til dugi. Þær fyrirætlanir hafa verið gagnrýndar af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, en Ögmundur segir þetta að minnsta kosti vera skref í rétta átt.

Í nýrri ársskýrslu Fiskistofu kemur fram að vegna Covid-faraldurs hafi mjög verið dregið úr eftirliti strax í mars. Ögmundur segir að þessu ástandi hafi fylgt miklar áskoranir fyrir eftirlitsmenn stofnunarinnar en þær hafi einnig leitt starfsemina að nokkru inn á nýjar brautir. Meðal annars var byrjað að nota dróna við fiskveiðieftirlit og svo hefur meiri áhersla verið lögð á gagnagreiningar af ýmsu tagi.

„Við höfum verið að leggja mun meiri áherslu á rafrænt eftirlit, greiningar á gögnum, samanburði og þvíumlíkt. Áskoranir eru alltaf skemmtilegar og kalla á nýja nálgun, og það hafa þær gert. Þetta hefur ýtt undir þessa þróun.“