Greiningardeild Arion banka segir í Markaðspunktum sínum jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf að Seðlabankinn sé opinn fyrir því að beita fleiri stjórntækjum heldur en stýrivöxtum og vitnar þar til orða Más Guðmundssonar í viðtali við Reuters fréttastofuna. Þar sagði Már að gengi krónunnar sé lykillinn og segir greiningardeildin að svo virðist sem Seðlabankinn hafi nú bætt gjaldeyrisinngripum við vopnabúr sitt í baráttunni við verðbólgu. Verðbólgumarkmið hafi að hluta vikið fyrir gengismarkmiði og heilbrigði hagkerfisins í heild sé nú farið að spila stærri rullu í ákvarðanatökunni.

Hún ítrekar aftur á móti hversu hættulegt það er til lengri tíma litið að beita skuldsettum gjaldeyrisforða með þessum hætti. „Þá er einkum mikilvægt í þessu samhengi að bankinn bregðist eins við ef krónan styrkist á vormánuðum til að hann geti endurheimt forðann til baka. Þeim mun mikilvægara er í þessu samhengi að Seðlabankinn hafi skýra mynd af erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins og greiðsluflæði komandi missera. Ef bankinn hefur lesið stöðuna rangt þá eru inngripin nú mistök en slíkt kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum.“