Stofnað hefur verið Fagráð verslunar- og þjónustugreina sem hefur það hlutverk að samræma og efla starfsmenntun fyrir þessar starfsgreinar. Björn Garðarsson hefur verið ráðinn starfsmaður fagráðsins og mun hann hafa aðsetur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Í stjórn fagráðsins eiga sæti tveir fulltrúar Landssambands ísl. verslunarmanna/VR auk tveggja fulltrúa SVÞ, sem Samtök atvinnulífsins tilnefna. Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks fjármagnar starfsemi fagráðsins.

Ástæðan fyrir stofnun fagráðsins er sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað að undanförnu á sviði starfsmenntunar fyrir verslunarfólk og mun einnig ná til annarra þjónustugreina. Hlutverk fagráðsins er m.a. að sjá til þess að starfsmenntun fyrir verslunar- og þjónustugreinar á mismunandi stigum framhaldsskóla myndi eina heild sem kemur bæði fyrirtækjunum og starfsmönnum til góða. Fagráðið mun einnig hafa umsjón með því að nýtt starfsnám fyrir verslunar- og þjónustugreinar verði í samræmi við námskrár og kröfur menntamálayfirvalda.

Auk þess að stuðla að samræmdri uppbyggingu á starfsnámi mun starfsmaður fagráðsins annast kynningu og önnur verkefni fyrir Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks. Gerður hefur verið samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um að fagráðið verði starfrækt þar og Fræðslumiðstöðin beri ábyrgð á framkvæmdinni. Þannig er vonast til að nýta samlegðaráhrif við aðra starfsemi sem þar fer fram.