*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 13. september 2017 15:50

Fáheyrt að ríki sé jafn háð ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan, sem er orðin langstærsta útflutningsgrein Íslands, hefur umtalsverð áhrif á gengi íslensku krónunnar.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan, sem er orðin langstærsta útflutningsgrein Íslands, hefur umtalsverð áhrif á gengi íslensku krónunnar. Í nýrri úttekt Arion banka á sambandi krónunnar og ferðaþjónustu er orsakasamhenginu lýst sem hringekju: Þegar ferðaþjónustan vex, þá streymir gjaldeyri inn, þegar hann streymir inn styrkist íslenska krónan. Gengisstyrkingin hefur þau áhrif að ferðaþjónustan dregst saman sem að hefur þau áhrif að gjaldeyrisinnstreymi minnkar. Í kjölfarið veikist krónan sem að gæti haft þau áhrif að ferðaþjónustan vaxi á nýjan leik. 

Í greiningunni segir einnig að það sé fáheyrt að ríki, hvað þá myntsvæði líkt og hér á landi, sé jafn háð ferðaþjónustu og raun ber vitni. Þar er meðal vísað til þess að ferðaþjónustuútflutningur á hvern Íslending, sem nemur 8,8 þúsund Bandaríkjadali, er um sex sinnum meiri en á hvern Spánverja. Ísland raðar sér meðal þeirra ríkja sem eru háðust ferðaþjónustu. Eina sjálfstæða ríkið sem er fyrir ofan Ísland, þegar litið er á ferðaþjónustutekjur á íbúa, er Lúxemborg. 

Líkt og talsvert hefur verið fjallað um væri raungengi íslensku krónunnar vafalaust lægra án hins mikla vaxtar sem hefur verið í ferðaþjónustu. Í úttekt Arion banka segir að launahækkanir síðustu ára hefðu illa gengið upp án ferðaþjónustunnar og þeirri miklu kaupmáttaraukningu sem að orðið hefur í erlendri mynt. 

Stikkorð: Ferðaþjónusta krónan tekjur