Evrópusambandið ætti að gera Tyrkjum kleift að ferðast um sambandið án þess að þurfa sérstakt leyfi, eða visa, í október eða samningur sambandsins við Tyrkland yrði gerður óvirkur, sagði utanríkisráðherra Tyrklands Mevlut Cavusoglu í þýsku dagblaði.

Hundruðir þúsunda flóttamanna gætu flætt inn í Evrópu

Spurður hvort hundruðir þúsunda flóttamanna í Tyrklandi myndu halda til Evrópu ef Evrópusambandið myndi ekki veita Tyrkjum heimild til að ferðast án vegabréfsáritunar svaraði hann.

„Ég vil ekki tala um verstu mögulegu niðurstöðuna, viðræður við ESB halda áfram en það er ljóst að við annað hvort virkjum alla samninga á sama tíma eða enga þeirra.“

Frjálsar ferðir helstu verðlaun Tyrkja fyrir samstarf vegna flóttamanna

Frjáls ferðalög tyrkneskra borgara án sérstakrar vegabréfsáritunar eru helstu verðlaun Tyrkja fyrir að starfa með sambandinu við að stöðva straum flóttafólks inní Evrópu, en tafir hafa orðið á að reglurnar öðlist gildi vegna gagnrýni á hryðjuverkalög í Tyrklandi og hreinsanir ríkisstjórnarinnar á stjórnkerfinu í kjölfar misheppnaðs valdaráns.

Evrópusambandið vill að Tyrkland breyti hryðjuverkalögunum sem þeim þykja vera of hörð, en fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, Guenther Oettinger hefur sagt að hann sjái ekki að sambandið veiti Tyrkjum ferðaheimild án vegabréfsáritunar á þessu ári eftir hreinsanirnar.

Ekki staðist að fáum ekkert í staðinn

Utanríkisráðherrann leggur áherslu á að allir Tyrkir hljóti ferðaheimildina í október og bætti við. „Það getur ekki staðist að við uppfyllum allt það sem er gott fyrir ESB en Tyrkland fái ekkert í staðinn.“

Forsetinn Tayyip Erdogan hefur sagt að hann myndi samþykkja upptöku dauðarefsingar í landinu ef þingið myndi samþykkja það, en Evrópusambandið myndi ekki samþykkja inngöngu landsins í sambandið ef dauðarefsing væri heimild. Sagði utanríkisráðherrann að ESB hagaði sér eins og dauðarefsingin væri þegar orðin að lögum.

Jafnframt sagði hann aðspurður að þó andstæðingar Tyrkja töluðu gegn aðild landsins að NATO þá væru Tyrkir einna helsti stuðningsmaður varnarbandalagsins.