Innanríkisráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi til breytinga á vopnalögum. Meðal þess sem er lagt til í frumvarpinu er að almenningi verði óheimilt að hafa í fórum sínum handjárn, sem í dag er heimilt.

Á þessu verður gerð undantekning fyrir flugrekendur, en verði frumvarpið að lögum mega þeir „eignast handjárn og fótjárn úr málmi eða öðru efni og hafa til notkunar um borð í loftförum sínum“. Tilgangurinn er sá að þeim verði heimilað að handjárna óknyttafarþega, en þeir hafa hingað til notast við límband til þess.

Meðal annarra breytinga er sú að eigendur skotvopna þurfa að eignast byssuskáp samhliða fyrstu byssu, en hingað til hefur það einungis þurft ef eigandi skotvopna á þrjú eða fleiri slík vopn. „Í okkar huga er það jákvæð breyting,“ segir Arne Sólmundsson, stjórnarmaður í Skotvís.