Samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs og Zenter sem gerð var í júlí og ágúst sl. telja einungis 3% þeirra sem búsettir eru í leiguhúsnæði líkur á að þeir kaupi fasteign á næsta hálfa árinu. Þetta kemur fram í nýrra mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Auk þess telja 92% leigjenda öruggt að þau muni ekki kaupa fasteign ef horft er hálft ár fram í tímann, en það hlutfall hefur sömuleiðis ekki mælst jafnhátt.

Í skýrslunni segir að líkur þess að einstaklingar kaupi sér fasteign á komandi mánuðum mælast nánast þær sömu hvort sem fólk er búsett á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Hins vegar veki athygli að þær horfur hafi farið ögn lækkandi á landsvísu það sem af er þessu ári.

„Sú þróun er nokkuð á skjön við vísitölu fyrirhugaðra húsnæðiskaupa, sem Gallup mælir á þriggja mánaða fresti út frá könnun sem fyrirtækið gerir um væntingar neytenda og fjallað var um af hagfræðideild Landsbankans í lok nýliðins mánaðar. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar könnunar hækkaði vísitalan verulega á milli mælinga í mars og júní í ár og hefur í raun ekki mælst hærri frá því í september 2007.

Ekki skal hér fullyrt hvað það er sem veldur þeim mismun sem fram kemur í þróun þessara tveggja mælinga en líklegt er að nýleg áföll í lykilútflutningsgreinum okkar auk yfirlýsinga stjórnvalda um átak í húsnæðismálum við undirritun lífskjarasamninganna hafi aukið óvissu almennings um framtíðarstöðu á húsnæðismarkaðnum og þar með einnig óvissu í úrtökum umræddra kannana,“ segir í skýrslunni.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í júlí frá fyrri mánuði samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands samanborið við 0,1% hækkun íbúðaverðs í sama mánuði. Það sem af er þessu ári hefur vísitala leiguverðs hækkað um 1,2% á móti 0,8% hækkun íbúðaverðs. Á sama tímabili hefur vísitala launa hækkað um 3,1%.