London var ein þeirra þriggja borga sem flogið var reglulega til og frá Keflavíkurflugvelli í vor en sætanýtingin í þessum ferðum var þó mjög lág. Frá þessu er greint á vef Túrista .

Af þeim sökum styrkti íslenska ríkið áætlunarflug Icelandair nú í vor sem gerði félaginu kleift að halda úti ferðum til London, Stokkhólms og Boston.

Í apríl flugu aðeins 912 farþegar milli Íslands og London og í maí fór fjöldinn svo upp í 1214 farþega samkvæmt nýjum tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. En þess ber að geta að farþegar eru taldir bæði þegar þeir fljúga frá London og líka þegar þeir lenda þar.

Bróðurpartur flugflota Icelandair eru Boeing 757 þotur með 183 sæti. Sætanýtingin hefur því verið mjög lág í þessum ferðum til og frá bresku höfuðborginni.