Norðurál hefur áformaðað reisa álver í Helguvík í langan tíma en fyrirtækið hóf undirbúning verkefnisins árið 2004. Álverið á að vera í fremstu röð í heiminum þar sem allur búnaður verður samkvæmt bestu fáanlegu tækni og starfsemin eins umhverfisvæn og kostur er á. Árið 2014 hefur álverið hins vegar ekki enn hafið starfsemi og ekki er útlit fyrir að það gerist á næstunni.

Norðurál undirritaði samning við Hitaveitu Suðurnesja (HS) í apríl 2007 um orkusölu til álversins í Helguvík. Samkvæmt samningnum átti HS að útvega Norðuráli raforku fyrir álverið í Helguvík, þar á meðal allt að 150MW fyrir fyrsta áfanga álversins sem miðaðist við 150 þúsund tonna ársframleiðslu. En nú þegar sjö ár eru liðin frá undirritun samningsins milli fyrirtækjanna stendur álverið þó ekki enn fullbyggt, engin álvinnsla hefur átt sér stað og þar af leiðandi hefur Norðurál enga raforku þegið frá HS Orku.

HS Orka telur skilyrði samningsins ekki uppfyllt og stefndi Norðuráli fyrir gerðardóm í sumar. Fari það svo að samningurinn milli fyrirtækjanna verði dæmdur ógildur er hætt við því að álverið hefji aldrei starfsemi því fáir aðrir kostir eru í stöðunni fyrir Norðurál til þess að sækja fullnægjandi raforku. Norðurál hefur til dæmis lýst yfir þeim vilja að Landsvirkjun annist orkuöflun fyrir starfsemina. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hins vegar sagt að Landsvirkjun væri aðeins unnt að bjóða raforku á bilinu 50 til 100 MW til starfseminnar, sem dugar henni tæplega, og að álverð þyrfti að hækka töluvert til þess að unnt væri að ljúka samningum.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .