Fyrir utan árið 2006 fór hlutfall hlutabréfa af eignum framtalsskyldra Íslendinga stöðugt lækkandi á tímabilinu 2000 til 2013, samkvæmt tölum sem birtar eru í skýrslu Bankasýslu ríkisins um sölu á Landsbankanum.

Yfir 4% af eignum framteljenda voru hlutabréf árið 2000, en árið 2014 voru hlutabréf aðeins rúmlega 1% af eignum framteljenda. Framteljendur með arð af hlutabréfum voru um 13.000 árið 2014, sem er aðeins um þriðjungur þess sem var árið 2004.

Bankasýslan segir að lítil hlutabréfaeign landsmanna gefi til kynna ákveðið svigrúm einstaklinga til þátttöku í útboði hlutabréfa í Landsbankanum. Þó sé líklegt miðað við reynslu af nýlegum skráningum félaga að hlutdeild einstaklinga í útboði verði alltaf mun lægri en hlutur fagfjárfesta. Neikvæð umræða um bankakerfið gæti dregið úr áhuga einstaklinga á þátttöku í slíku útboði.