"Okkur sýnist að ákaflega vel hafi tekist til með þessa framkvæmd alla, sem sést hvað best á því hversu afar fáir gera formlegar athugasemdir, en auðvitað eru nokkur dæmi um einstaklinga sem nýta andmælarétt sinn og þau mál verða öll könnuð ítarlega á nýju ári," segir Karl Steinar Guðnason forstjóri Tryggingastofnunar, í frétt á heimasíðu Tryggingastofnunar. Aðeins um 320 lífeyrisþegar af tæplega 42 þúsund gera formlega athugasemdir við endurreikning Tryggingastofnunar á bótarétti ársins 2003, eða liðlega 0.8% lífeyrisþega.

Þessa dagana er af hálfu TR kostað kapps um að endurgreiða inneignir en þær verða greiddar 24 þúsund lífeyrisþegum í næstu viku. Etir áramót verða athugasemdir vegna uppgjörsins teknar fyrir segir í frétt TR.

Mikið annríki hefur verið í Tryggingastofnun að undanförnu vegna endurreiknings á lífeyrisgreiðslum og á þriðja þúsund manns komið í þjónustumiðstöð til að leita skýringa og fá úrlausn. Það er til marks um álagið að á fjórum dögum bárust 11 þúsund símtöl í símaver þjónustumiðstöðvar.

Að frumkvæði Tryggingastofnunar hefur verið haft náið og gott samráð um endurreikning lífeyrisgreiðslna við samtök aldraðra og öryrkja, m.a. hafa fulltrúar TR boðið upp á einstaklingsviðtöl á skrifstofu eldri borgara í vikunni.

"Þetta nýja fyrirkomulag endurreiknings gerbreytir öllu umhverfi lífeyristrygginga á komandi ári og leiðir til mikilla réttarbóta fyrir lífeyrisþega," segir Karl Steinar. "Það var með lögum árið 2002 ákveðið að taka upp nýtt fyrirkomulag við útreikning og greiðslu tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Í því felst að bæturnar verða framvegis ákvarðaðar út frá tekjuáætlunum bótaþega og síðan endurreiknaðar þegar álagning opinberra gjalda liggur fyrir árið eftir. Í framhaldi af því fer endurreikningur bótanna fram," segir hann.

Byggt á frétt á heimasíðu Tryggingastofnunar.