Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu dróst verulega saman milli vikna í vikunni eða um 46% og nam um 770 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands (áður Fasteignamat ríkisins).

Rétt er þó að hafa huga að engin viðskipti voru á föstudaginn langa og á annan í páskum en aðeins 17 samningum var þinglýst í vikunni sem er nokkuð undir meðallagi.

Fjögurra vikna meðalvelta er nú um 1.293 milljónir króna og lækkaði lítillega milli vikna en tvær fyrstu vikurnar í apríl voru þó þær bestu frá því í byrjun nóvember. Í lok desember fór fjögurra vikna meðalveltan undir milljarða og það var ekki fyrr en í lok febrúar sem veltan fór aftur yfir milljarð.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan en meðalveltan hefur minnkað um 40% milli ára. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu fjögurra vikna og breytinga á henni milli ára.

Þess má geta að seinni part mars í fyrra fór veltan á fasteignamarkaði að dragast verulega saman þannig að mismunurinn á milli ára verður ekki ýkja mikill næstu vikur og mánuði með sama áframhaldi.

Sem fyrr segir var fjöldi þinglýstra kaupsamninga 17 í vikunni en 32 samningum var þinglýst í vikunni þar áður. Að meðaltali var 52 samningum þinglýst á viku á síðasta ári en frá áramótum hefur 32 samningum verið þinglýst að meðaltali á viku.

En meðalupphæð á hvern samning er áfram óvenju há og var í vikunni 45,4 milljónir króna og. Eins og segir er það nokkuð yfir meðaltali en meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári voru tæpar 32 milljónir króna en rétt rúmar 34 milljónir króna frá síðustu áramótum.

Á ársgrundvelli hefur velta á fasteignamarkaði dregist saman um 62% og gefur það e.t.v. heildstæðari mynd af fasteignamarkaði. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.