Hluthafar sem áttu samtals 50.744.588 hluti í Skeljungi hf. tóku yfirtökutilboði Strengs , eða sem nemur 2,56% hlutafjár í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar .

Þann 6.desember sl. gerði Strengur hf. hluthöfum Skeljungs hf. yfirtökutilboð samkvæmt ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga, Gildistími yfirtökutilboðsins var til kl. 16:00 í gær.

Strengur hf. og tengdir aðilar fóru með atkvæðisrétt 754.639.578 hluta í Skeljungi hf. eða sem nemur um 38% atkvæða í félaginu fyrir tilboðið. Í kjölfar uppgjörs tilboðsins munu Strengur hf. og tengdir aðilar eiga 805.384.166 hluti og munu því fara með 40,56% atkvæða við uppgjör viðskipta eða 41,60% atkvæða þegar leiðrétt hefur verið fyrir eigin hlutum.

Sjá einnig: Lífeyrissjóðir höfnuðu yfirtökutilboði

Í tilkynningunni segir að fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hafi verið umsjónaraðilar yfirtökutilboðsins fyrir hönd Strengs. Greiðsla verði innt af hendi til þeirra tilboðshafa sem samþykktu tilboðið, eigi síðar en nk. mánudag.

„Strengur hefur í tilboðsyfirliti, yfirlýsingum út á markaðinn og á fundum ráðgjafa Strengs með öðrum hluthöfum lýst fyrirætlunum sínum með ítarlegum hætti. Með tilboðinu fengu þeir hluthafar sem ekki deildu þeirri sýn tækifæri til að selja bréf sín með álagi m.v. síðasta viðskiptadag fyrir gerð tilboðsins. Strengur þakkar öðrum hluthöfum það traust og þá trú sem þeir hafa á þeirri vegferð sem kynnt hefur verið.  Strengur mun í krafti atkvæða sinna fylgja eftir þeirri sýn, öllum hluthöfum Skeljungs til hagsbóta" segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Strengs hf. og Skeljungs hf. í tilkynningunni.