Fyrir stuttu birti Rannsóknarsetur verslunarinnar gagnvirkt hitakort sem lýsir hreyfingu ferðamanna á Íslandi. Byggir kortið á staðsetningu erlendra farsíma sem eru á reiki hjá símanum. Greiningardeild Arion banka hefur skoðað gögnin og bendir á nokkuð áhugaverðar staðreyndir hvað varðar ferðahegðun erlendra ferðamanna. Til að mynda verja ferðamenn iðulega deginum úti á landi og nóttunni í Reykjavík. Einnig vakti það athygli að svipað margir eru á Þingvöllum og Mývatni á sumrin þó að munurinn sé talsverður á veturna.

Tvöfalt fleiri ferðamenn eru á landinu yfir sumartímann en dvalarstaður þeirra er mismunandi eftir árstíðum. Fjöldi ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu er svipaður bæði á sumrin og á veturna, en það sama er ekki upp á teningnum þegar kemur að öðrum landshlutum. Fáir ferðamenn fara fyrir utan suðvesturhornið utan háannatíma.

Til að mynda leggja svipað margir ferðamenn leið sína til Mývatnssveitar en á Þingvelli á sumrin, en á hvorum stað eru 3 til 4 prósent allra ferðamanna sem staddir eru á landinu miðað við tölur Símans um sumrin. Staðan er gjörólík á veturna, en þá er hlutfallið 4 prósent á Þingvöllum en einungis um eitt prósent á Mývatni. „ Svipaða sögu má segja um aðra staði en svo virðist að því nær Keflavíkurflugvelli sem staðurinn er, því betur heldur hann velli í vinsældum yfir vetrartímann. Það samræmist ágætlega því að eftir því sem ferðamenn dvelja skemur á landinu því nær flugvellinum halda þeir sig og meðalferðamaðurinn dvelur skemur á landinu á veturna en sumrin,“ segir í greiningu Arion banka.

Dagurinn úti á landi, nóttin í Reykjavík

Það vakti sömuleiðis áhuga greiningardeildarinnar hvernig ferðamenn dreifast eftir tíma dags. Í ljós kemur að ferðamenn eyða nóttinni frekar á höfuðborgarsvæðinu en nýta hins vegar daginn til að skoða sig um og ferðast út á land, eins og kannski við mátti búast.

45 prósent símtækja eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu um miðja nótt samanborið við 35 prósent um eftirmiðdaginn. Það sama er hægt að segja um miðborgina þar sem ríflega 20 prósent ferðamanna dvelja daglega. Miðað við fjölda ferðamanna, dvalartíma og áætlaða stærð miðbæjarins af korti RSV eru á milli 3 til 5 þúsund ferðamenn á hvern ferkílómetra í miðbænum á hverri nóttu í ár.