Greiningardeild Arion banka telur að þegar líður á haustið verði fáir verðbólguhvetjandi þættir aðrir en væntanlegar gjaldskrárhækkanir orkufyrirtækja og hins opinbera. Hafa verði í huga að kaupmáttur er enn að dragast saman, atvinnuleysi er í hámarki, innlend eftirspurn lítil og krónan hefur styrkst.

Greiningin gerir ráð fyrir 0,25% verðhjöðnun í júli sem mun lækka verðbólgu úr 5,7% í 5,2%. Sumarútsölur hafa nokkur áhrif á þessa lækkun. Langtímaspá bankans gerir ráð fyrir að hratt dragi úr verðbólgu á seinni helmingi ársins og að hún verði komin í kringum markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu í lok árs.