Starfsemi í Fákaseli hefur verið lokað. Þetta kom fyrst fram í Hestafréttum . Starfsemi Fákasels var til húsa í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli í Ölfusi. Þar voru haldnar sýningar um íslenska hestinn fyrir ferðamenn og aðra gesti.

Í frétt Hestafrétta segir að „dæmið hafi ekki gengið upp fjárhagslega,“ og að of fáir gestir hafi heimsótt sýninguna. Í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins , segir að fyrsta árið í rekstri, árið 2014 hafi tap félagsins numið 136 milljónum króna. Árið 2015 tapaði félagið 167,7 milljónum króna. Haft er eftir Helga Júlíussyni, framkvæmdastjóra ITF 1 og stjórnarmanni í Fákaseli ehf., að þau vonist til að þau komist hjá því að félagið fari í þrot.

„Við höfum sent frumvarp að nauðasamningi til Héraðsdóms Suðurlands,“ er jafnframt haft eftir honum í frétt Markaðarins. Fagfjárfestingasjóðurinn Landsbréf Icelandic Tourism Fund 1 slhf. (ITF 1) á um 90 prósenta hlut í Fákaseli. Sjóðurinn er í eigu Icelandair Group, Landsbankans og sjö lífeyrissjóða.