*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. janúar 2017 12:25

Fákeppni er hættumerki

Minnkandi samkeppni í fjármálakerfinu gæti dregið úr framleiðni í fjármálaþjónustu og í hagkerfinu.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Margt hefur áunnist á þeim árum sem liðin eru frá fjármálakreppunni. Á sama tíma hafa samkeppnisaðstæður í fjármálakerfinu versnað með samþjöppun fjármálafyrirtækja og minnkandi samkeppni, einkum í viðskiptabankaþjónustu. Hætta er á því að þróunin skili hærra verði og verri þjónustugæðum til neytenda og hamli framleiðni í hagkerfinu. Þó eru tækifæri framundan til að bæta úr því.

Hrunið helsti orsakavaldurinn

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, nefnir að helst standi fjármálakreppan, fjármagnshöftin og íþyngjandi regluverk á bak við þróunina. „Hrunið hefur verið stærsti einstaki þátturinn í þessari samþjöppun,“ segir Páll Gunnar.

„Margir smærri keppinautar hurfu af fjármálamarkaði í hruninu, þrátt fyrir að þeir hafi að einhverju leyti verið að renna saman í aðdraganda þess. Fjármagnshöftin og uppsöfnuð fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna innan þeirra hefur verið ráðandi þáttur í samþjöppun á eignarhaldi í atvinnulífinu almennt. Síðan hefur hertara regluverk og aukið eftirlit sett upp aðgangshindranir á fjármálamarkaði fyrir ný fjármálafyrirtæki og hækkað rekstrarkostnað smærri fyrirtækja,“ segir Páll Gunnar. Má þar nefna reglur varðandi áhættustýringu, innra eftirlit, ytri endurskoðun, regluvörslu og eiginfjár- og lausafjárkröfur.

Nefna mætti fleiri þætti. Efnahagsreikningar fyrirtækja þörfnuðust endurskipulagningar eftir fjármálakreppuna, og vegna slæmrar stöðu margra fyrirtækja opnaði samruni á hagræðingu, þó það hafi ekki alltaf skilað til­ ætluðum árangri. Lánsfjáreftirspurn hefur verið takmörkuð, enda hefur áherslan í fjármála­ þjónustu frá hruni verið á endurskipulagningu og niðurgreiðslu skulda heimila og fyrirtækja. Síðan hefur íslenska krónan og gengisáhætta hennar latt erlend fjármálafyrirtæki til að koma hingað, og því gæti krónan hafa haft samkeppnishamlandi áhrif.

Veldur áhyggjum

Páll Gunnar segir versnandi samkeppnisaðstæður í fjármálakerfinu vera áhyggjuefni og að hætta sé á að það hafi áhrif á framleiðni í fjármálakerfinu og í hagkerfinu.

„Það er almennt hætta á því að aukin samþjöppun og fækkun fjármálafyrirtækja leiði til hærra verðs, verri þjónustugæða, aukinnar einsleitni í framboði á fjármálaþjónustu og minna samkeppnisaðhalds, sem bitnar á hagræðingu í rekstri, nýsköpun, tækninýjungum, og á neytendum. Það er áhyggjuefni, þó erfitt sé að leggja mat á þessa þætti. Því er mikilvægt að hafa vakandi auga fyrir samkeppni í fjármálakerfinu og leita leiða til að efla hana. Í fákeppnisumhverfi geta síðan skapast aðstæður fyrir þögla samhæfingu milli keppinauta,“ segir Páll Gunnar.

„Svo verður að hafa í huga að í litlum hagkerfum eins og því íslenska eru almennt ekki margir keppinautar um meginstoðir fjármálaþjónustu,“ bætir hann við.

Við þetta mætti bæta að samþjöppun og fákeppni eykur kerfislegt mikilvægi þeirra fyrirtækja sem hafa yfirgnæfandi markaðshlutdeild á fjármálamarkaði, sem gæti aukið fjármálaóstöðugleika þegar á reynir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.