Gjaldþrot annars af stóru íslensku flugfélögunum gæti kostað vel á annað hundrað milljarða í tapaðar útflutningstekjur og dregið verulega úr hagvexti hér á landi. Vinna er hafin innan Stjórnarráðsins að kanna hvernig ríkið gæti þurft að grípa inn í ef flugfélög lenda í verulegum rektstrarerfiðleikum en vinnan er skammt á veg komin.

Um fjórir af hverjum fimm farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll ferðast með Wow air og Icelandair. Hlutdeild Icelandair í farþegaflutningum frá febrúar 2017 til janúar 2018 var 48% og 31% í tilfelli Wow air. Landsbankinn benti á í skýrslu um ferðaþjónustuna í haust að vegna hárrar markaðshlutdeildar flugfélaganna mætti velta því upp hvort þau væru kerfislega mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika líkt og stóru viðskiptabankarnir teljast hvað varðar fjármálastöðugleika. „Verulegar truflanir á starfsemi flugfélaganna eða brottfall annars, hvað þá beggja flugfélaganna af markaðnum, myndi augljóslega hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Áhrifin yrðu einnig veruleg fyrir íslenskt efnahagskerfi í heild og almenning. Slíkt áfall hefði keðjuverkandi áhrif, m.a. á gengi krónunnar, eignaverð, vexti og verðbólgu,“ segir í skýrslunni.

Vefurinn Túristi hefur bent á að hlutfall innlendra flugfélaga sé hvergi hærra í millilandaflugi í Evrópu.

Nokkur stór evrópsk flugfélög hafa á síðustu mánuðum lent í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum. Norska flugfélagið Norwegian air þurfti að sækja sér 17 milljarða króna í hlutafé á afslætti og selja flugvélar eftir að tap flugfélagsins á fyrsta ársfjórðungi jó- kst um 44% milli ára og nam 33 milljörðum króna fyrir skatta. Næststærsta flugfélag Þýskalands, Air Berlin, fór í greiðslustöðvun í ágúst og breska flugfélagið Monarch var lýst gjaldþrota í október. Gjaldþrot Monarch olli verulegum rekstrarerfiðleikum hjá Kortaþjónustunni. Kvika banki og hópur fjárfesta keyptu Kortaþjónustuna í kjölfarið á eina krónu og lögðu til 1,5 milljarða í hlutafé.

Viðbrögð annarra flugfélaga myndi skipta miklu

Vandkvæðum er bundið að meta hvaða áhrif gjaldþrot eða verulegir rekstrarerfiðleikar annars eða hvað þá beggja þeirra hefði á fjölda ferðamanna. Það veltur til að mynda á því hve hratt önnur flugfélög myndu bregðast við í ferðum. Hafa verður í huga að þrátt fyrir háa markaðshlutdeild Wow air og Icelandair ráðgera 29 flugfélög að fljúga til Íslands á þessu ári.

Fæli gjaldþrot annars þeirra í sér að ferðamönnum myndi fækka um 10-20% og neysla ferðamanna dragast saman í sama mæli myndi það þýða 32-64 milljarða samdrátt á neyslu ferðamanna á Íslandi. Við þetta myndi svo bætast samdráttur í veltu viðkomandi flugfélags. Wow air velti um 50 milljörðum á síðasta ári og gerir ráð fyrir að velta verði nálægt 70 milljörðum á þessu ári samkvæmt rekstraráætlun félagsins sem birtist í tímaritinu Áramótum sem Viðskiptablað- ið og Frjáls verslun gefa út. Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu um hundrað milljörðum króna í fyrra. Svo skarpur samdráttur í ferðaþjónustu ásamt rekstrarstöðvun flugfélags gæti því hæglega valdið nálægt 10% samdrætti í útflutningstekjum Íslands sem námu 1.200 milljörðum í fyrra.

Hefði áhrif um allt hagkerfið

Slíkur samdráttur hefði að líkindum einnig umtalsverð áhrif á gengi krónunnar og ylli hærri verðbólgu. Slíkt myndi þýða minni kaupmátt og einkaneysla drægist saman að öðru óbreyttu. Slíkt væri einnig líklegt til að hafa í för með sér útstreymi fjármagns sem myndi leiða til enn frekari lækkunar á gengi krónunnar. Fækkun ferðamanna myndi að líkindum einnig hafa áhrif á fasteignaverð með samdrætti í útleigu íbúða á Airbnb. Í nýlegri rannsóknarritgerð Seðlabankans segir að útleiga til ferðamanna í gegnum Airbnb hafi hækkað húsnæðisverð um 6% hækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 til ársloka 2017 sem skýri 15% af heildarhækkun húsnæðisverðs á tímabilinu. Þá yrði slíkur samdráttur líklegur til að valda umtalsverðri fækkun starfa í ferðaþjónustu og þar með auknu atvinnuleysi. Hagstofa Íslands hefur áætlað að á bilinu 25 til 26 þúsund manns starfi við ferðaþjónustu, eða 13-14% af íslenskum vinnumarkaði. Samtök ferðaþjónustunnar telja töluna ofmeta fjölda Íslendinga sem starfi innan ferðaþjónustu en engu síð- ur yrði ljóst að allt að fimmtungssamdráttur í ferðaþjónustu myndi auka atvinnuleysi hér á landi töluvert. Innan Icelandair Group, sem einnig rekur hótel og ferðaskrifstofu, störfuðu ríflega 4.200 manns á síðasta ári og þá starfa um 1.100 manns hjá Wow air. Samtök ferðaþjónustunnar áætla að ferðaþjónustan hafi skilað ríkissjóði um 90 milljörðum króna í gegnum skatta og gjöld á síðasta ári. Kosti gjaldþrot flugfélags 10-20% fækkun ferðamanna gætu því tekjur ríkisins hæglega kostað ríkissjóð 9 til 18 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .