Skuldir heimila við innlánsstofnanir jukust um 23% frá áramótum til septemberloka, að mestu leyti vegna beinna og óbeinna áhrifa af gengisfalli krónunnar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar kemur fram að alls voru skuldir heimilanna við banka og sparisjóði tæplega 1.030 milljarðar króna í lok september samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans fyrir bankakerfið.

Þar af voru tæplega 277 milljarðar í formi gengisbundinna lána og verðtryggð lán námu rúmum 625 milljörðum króna.

„Athygli vekur að á þriðja fjórðungi ársins hækkuðu skuldir heimila við innlánastofnanir um 8,4%, en á því tímabili var lítið um ný útlán til heimila og má gera ráð fyrir að þessi aukning sé að langstærstum hluta vegna áhrifa af gengisfalli krónu á höfuðstól gengistryggðra lána annars vegar, og verðbótaþáttar verðtryggðra lána hinsvegar,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

Sjá Morgunkorn Glitnis.