Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær var rætt við Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE).

Garðar segir stúdenta erlendis uggandi yfir stöðu krónunnar. Garðar telur að lækkun krónunnar kunni að koma í bakið á mörgum íslenskum nemum erlendis og verða til þess að þeir sitji uppi með háar yfirdráttarskuldir eftir önnina.

Meirihluti íslenskra nema erlendis fær námslán í erlendum gjaldmiðli sem eru greidd í einu lagi í lok hverrar annar. Til að hafa í sig og á á önninni taka margir mánaðarleg bankalán í íslenskum krónum, og nýta námslánið svo til að greiða upp bankalánið í annarlok.

Bankalánin nú skila sér í færri evrum eða dollurum en áður. Nemendur þurfa því annað hvort að draga saman seglin í einkaneyslu sinni, eða taka hærri íslensk lán. Sé bankalán á önninni auk þeirra vaxta sem leggjast á það yfir önnina hærra en námslán viðkomandi nemanda situr nemandinn uppi með mismuninn sem yfirdráttarskuld.

Það er því ljóst að íslenskir stúdentar erlendis þurfa að vera sparsamir á næstunni.