Króna
Króna
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Í augum Jóns Helga Egilssonar, verkfræðings og stundakennara við Háskóla Íslands, þar sem hann stundar doktorsnám í peningamálahagfræði, er það skýrt að hrun íslensku krónunnar 2008 hefur lítið með útrás og fall íslensku bankanna að gera. Krónan var fallin fyrir hrun bankanna og sýnt hefur verið fram á að snögghemlun átti sér stað upp úr miðju ári 2008, áður en bankarnir hrundu. Á Íslandi var rekin vaxtamunarstefna sem gerði landið háð vaxtamunarviðskiptum og vegna almennrar áhættufælni í heiminum þá drógust þau viðskipti snögglega saman. Menn fóru með fjármuni sína í öruggari hafnir – og Íslendingar neyddust til að horfast í augu við að stöðugur viðskiptahalli er óstöðugt jafnvægi.

„Við gátum þá ekki lengur fjármagnað umframneyslu okkar með þessum hætti. Í hruninu 2008 gerðist tvennt. Einkabankar fóru á hausinn og gjaldmiðillinn hrundi. Hið fyrrnefnda er nokkuð sem við verðum að sætta okkur við og í raun það sem við viljum að geti gerst í kapítalísku hagkerfi. Efnahagur fyrirtækja og heimila skemmdist ekki vegna falls þeirra heldur vegna falls krónunnar.“ Hann bendir á að krónan féll árið 2001 og þá hafi engir bankar komið nærri. Sömu undirliggjandi ástæður hafi legið að baki þá og á hrunárinu 2008.

Þá telur hann það einnig ljóst að stöðutökur banka og annarra gegn íslensku krónunni skýri ekki fall hennar. „Hér var kerfisbundið búið að viðhalda vaxtamun við önnur ríki í mörg ár. Að einhverjir hafi tekið stöðu gegn krónunni vegna þess að þeir töldu hana of sterka er ekki ástæða fyrir hruni hennar – ástæða fyrir hruni hennar er að styrkur hennar var tekinn að láni og lánveitendur vildu fá lán sín greidd til baka. Undirliggjandi ástæða var peningastefnan sem var rekin í formi vaxtamunar sem átti að laða fjármagn að til að styrkja gengið umfram eðlilegt jafnvægi. Slíkt fjármagn er ekkert annað en lán á óhagstæðum kjörum til að búa til falskt gengi – lán sem þarf að greiða til baka og veldur hruni á gjalddaga. Þessi stefna er því miður rekin enn í dag, enda sömu menn sem hafa í raun stýrt þessum málum síðastliðin 15 ár.“

Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.