Eygló Harðardóttir flutti frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna í febrúar síðastliðnum. Frumvarpinu var vísað til allsherjarnefndar. „Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu sem byggði meðal annars á frumvarpinu sem ég lagði fram. Það er búið að samþykkja að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd sem byggir þá á lögum um rannsóknarnefndir. Í þingsályktunartillögunni er tilgreint hvað eigi að rannsaka og hver verkefni nefndarinnar eru,“ segir Eygló Harða rdót tir. Frumvarp Eyglóar byggist á lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, nr.142/2008.

Miklar rannsóknarheimildir

Að sögn Birgis Ármannssonar, þingmanns í allsherjarnefnd, er ekki búið að skipa í nefndina. Einungis sé búið að samþykkja tillöguna og sé það verkefni forseta Alþingis í samráði við forsætisnefnd Alþingis að fylgja eftir skipun nefndar. Aðspurður hvort rannsóknarnefndin muni hafa sömu heimildir við öflun gagna og rannsóknarnefnd Alþingis svarar Birgir játandi. „Í öllum meginatriðum eru reglurnar sambærilegar.“

Í ákvæðum um heimildir rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, sé skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fór fram á. Undir hugtakið gögn í þessum skilningi féllu m.a. skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samningar og önnur gögn sem nefndin taldi tilefni til að óska eftir í þágu rannsóknarinnar. Þagnarskylda stóð ekki í vegi fyrir rannsókn nefndarinnar því að almennt var skylt að verða við kröfu hennar um að veita upplýsingar þó að þær væru háðar þagnarskyldu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.