Enn sem komið er virðist fall Straums hafa lítil áhrif á gjaldeyrismarkaðinn, þótt í fljótu bragði hefði ef til vill mátt búast við smá veikingarkipp enda engan veginn góð tíðindi sem slík. Þegar frá líður telja sérfræðingar að ekki ólíklegt að þetta geti styrki krónuna frekar en hitt.

Straumur hefur, líkt og önnur íslensk fjármálafyrirtæki, haft leyfi til að kaupa gjaldeyri til að greiða af erlendum lánum en nú er eiginlega hægt að taka þann hluta út fyrir sviga þar sem erlendir lánadrottnar fá eignir bankans upp í skuldir sínar en eiga ekki von á frekara greiðsluflæði.

Markaðurinn hefur þannig töluvert verið að líta til greiðsluferils Straums af erlendum lánum þar sem talsverðs útflæðis var að vænta fram eftir ári. Einnig benda sérfræðingar á að núna eru ríkisbankarnir í raun einir eftir á gjaldeyrismarkaði, og væntanlegra einfaldara í framkvæmd að ná samhljómi hjá helstu markaðsaðilum við þá hugmyndafræði stjórnvalda að styðja við bakið á krónunni með ráðum og dáð.