Reykjavíkurborg hefur ákveðið að breyta skilmálum sem gerðu ráð fyrir því að á húsþökum nýrra húsa á Hlíðarendasvæðinu yrði að vera grasþak að því er Morgunblaðið greinir frá.

Skilmálarnir voru upphaflega samþykktir árið 2015 en þá giltu þeir um öll þök á svæðinu nema á fimm hæða íbúðarhúsum auk íþróttamannvirkja.

Upphaflega hafi þó ekki verið gert ráð fyrir grasþökum á húsnæðinu sem rísa mun á stærstu atvinnulóðunum að sögn Kristjáns Ásgeirssonar arkitekts hjá Alark arkitektum ehf., þó það hafi síðan orðið niðurstaðan.

Borgarráð hafi svo tekið þessa ákvörðun nú eftir að óskir hafi borist um að slaka á kröfunum á ný fyrir atvinnulóðirnar. Rökin hafi verið þau að grasþök gætu bundið of mikið vatn sem ætti að fara út í Vatnsmýrina og þar með vatnasvið Tjarnarinnar.

En áfram verður skilyrðið um grasþök á stærstu íbúðarhúsareitunum fjórum, nema þá á hæstu stigagöngunum. Segir Kristján nauðsynlegt að tryggja að útsýni af þakgörðum á svæðinu verði grænt og vænt en ekki á svartan þakpappa.